HÆTTU AÐ REYKJA!

Forsíða » Fræðsla » Heilsa og næring » HÆTTU AÐ REYKJA!

Flestir vanmeta skaðsemi reykinga. Margir byrja að reykja á unglingsárum og þá virðast heilsufarsvandamál óravegu í burtu. En nikótín veldur ævilangri fíkn í tóbak. Um leið og þú byrjar að reykja ertu líklegri til að þurfa að kljást við ýmis minniháttar veikindi og að sjálfsögðu aukast mjög líkur þínar á alvarlegum sjúkdómum seinna á ævinni. Því yngri sem þú ert þegar þú byrjar að reykja og því fleiri sígarettur sem þú reykir, því meiri er áhættan.

Ef þér tekst ekki að hætta í fyrstu tilraun?

Ef þú hefur fallið áður og hefur áhyggjur af því að það gerist aftur, gefðu þér þá aðeins lengri tíma til að undirbúa næstu tilraun. Hver tilraun hefur gefið þér dýrmæta reynslu sem þú þarft að nýta þér til að takast ætlunarverkið. Ekki gefast upp. Margir eiga að baki nokkrar tilraunir til að hætta áður en það tekst.

Slæmu fréttirnar

* Á Íslandi eru reykingar helsta orsök margra ótímabærra sjúkdóma og dauðsfalla sem koma hefði mátt í veg fyrir.
* Sjúkdómar af völdum reykinga valda dauða um 360?400 Íslendinga árlega. Til samanburðar má nefna að um 20?25 láta lífið í umferðarslysum árlega.
* Á hverjum degi deyr einn Íslendingur vegna reykinga.
* Af 100 manns sem reykja frá táningsaldri til dauðadags munu 50 deyja af völdum sjúkdóma sem rekja má til reykinga og þar af 25 á miðjum aldri.
Yfir 80% allra lungnakrabbameina eru af völdum reykinga.

Góðu fréttirnar

Góðu fréttirnar eru að það virkar að hætta. Rannsóknir sýna að ef þú hættir að reykja, jafnvel á miðjum aldri, minnka líkur á krabbameini. Ef þú hættir fyrir miðjan aldur munt þú minnka líkurnar á reykingatengdum sjúkdómum um 90%.
Kannanir sýna að um 70% af þeim sem nota tóbak vilja hætta. Stærsti þátturinn í því að hætta er að vilja það sjálf/ur. Fólk sem vill hætta og leitar eftir aðstoð og ráðgjöf getur tvöfaldað líkur sínar á árangri.

Tekið úr bæklingi frá www.reyklaus.is