Eyrnasuð (Tinnitus)

Forsíða » Fræðsla » Heilsa og næring » Eyrnasuð (Tinnitus)

Hvað er eyrnasuð?

Eyrnasuð er upplifun hljóðs og birtist í mörgum myndum og hagar sér á ýmsa vegu. Hljóðgerðin er afar mismunandi eða allt frá lágum són yfir í hamarshögg og véladrunur. Stundum er hljóðið stöðugt, stundum kemur það og fer. Það sem einkennir þennan kvilla er að aðeins þeir sem upplifa suðið heyra þessi hljóð. Hljóðin koma sem sagt ekki frá utanaðkomandi hljóðgjafa. Sérfræðingar tala ekki um eyrnasuð sem sjúkdóm, heldur meta þeir suðið sem einkenni sjúkdóms. Eyrnasuð er algengt meðal karla og kvenna í öllum þjóðfélagshópum.

Eyrnasuð er ekki lífshættulegt þó að það geti verið erfitt að lifa með því. Eyrnasuð veldur ekki heyrnaleysi eða heyrnaskerðingu, en það getur haft áhrif á hljóðnæmnina og truflað einbeitinguna. Það er eðlilegt að finna fyrir ótta og vanlíðan þegar þú færð eyrnasuð. Þess vegna er mikilvægt að leita ráðgjafar og ábendinga um hvernig þú getir best lifað með suðinu þína.
Það er hægt að ná tökum á verulega erfiðu suði þannig að þú lifir góðu lífi þrátt fyrir suðið!

Orsakir eyrnasuðs

Orsakir eyrnasuðs eru margar og að jafnaði er það erfitt fyrir lækni að segja til um með vissu hvað valdi eyrasuði viðkomandi sjúklings. Því þurfa flestir að lifa við að orsökin sé óþekkt. Vitað er að eyrnasuðið getur orsakast af skaða í innra eyra, á heyrnatauginni eða að heyrnastöðvar heilans fái röng skilaboð. Einnig vitum við að eyrnasuð getur tengst eða verið afleyðing af:

• Hávaðaskemmdum
• Öldrun
• Höfuðhöggi
• Háum blóðþrýsting o einstaka lyfjum
• Kjálka- og bitvandamálum
• Méniéres sjúkdómi
• Eyrnasuð kemur oft í kjölfar heyrnaskerðingar
• Streita getur bæði orsakað og aukið eyrnasuð

Er einhver meðferð í boði á Íslandi?

Í nágrannalöndunum er svokölluð TRT þjálfun (hugræn atferlismeðferð) að skila góðum árangri. TRT þjálfunin kennir fólki að „velja“ hvað það vill heyra og  „hafna“ eyrnasuðinu. Markmiðið er að „plata“ heilann svo að athyglin beinist að því hljóði sem maður velur og suðið hverfi eða minnki….. og þetta tekst mörgum. Í áraraðir hefur það verið baráttumál Heyrnahjálpar að komið verði á sérhæfðu meðferðarúrræði sem þessu á Íslandi.

Flestir venjast sínu eyrnasuði. Í upphafi finnst fólki það fjarlægur draumur eða ógerlegt, en staðreyndin er sú að mögrum tekst þetta. Talið er að heilinn venjist suðinu og þá verði auðveldara að leiða það hjá sér. Sumum tekst sjálfum að vinna á þessum kvilla en aðrir nýta sér aðstoð þeirra sem reynsluna hafa. Svo eru enn aðrir sem leita sér hjálpar til meðferðaraðila s.s. lækna, heyrnafræðinga, sálfræðinga og annars fagfólks eða starfsfólks hagsmunasamtaka.

Unnið úr bæklingi Heyrnahjálpar
Til að fræðast meira bendum við á heimasíðu félagsins 
www.heyrnahjalp.is