Hvað borða íslensk börn?

Forsíða » Fræðsla » Börn og unglingar » Hvað borða íslensk börn?
Hvað borða íslensk börn á leikskólaaldri?

Komin er út skýrsla með niðurstöðum könnunar á mataræði 3ja og 5 ára barna á höfuðborgarsvæðinu árið 2007. Rannsóknastofa í næringarfræði (RÍN) og Lýðheilsustöð stóðu að rannsókninni en hún var unnin af RÍN 2007-2008. Rannsóknin leiddi í ljós bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar á mataræði barnanna, s.s. að fiskneysla væri í samræmi við ráðleggingar en langt væri í land með ávaxta- og grænmetisneyslu.
Höfundar skýrslunnar eru Ingibjörg Gunnarsdóttir, Tinna Eysteinsdóttir og Inga Þórsdóttir. Að útgáfu skýrslunnar standa Lýðheilsustöð og Rannsóknastofa í næringarfræði en hún er fáanleg hjá Rannsóknastofu í næringarfræði, sími 543 8410.
Að auki er hægt að skoða skýrsluna og prenta út hér (PDF)

Helstu niðurstöður

Rannsóknin leiddi í ljós bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar á mataræði 3ja og 5 ára íslenskra barna. Þó svo að ávaxta- og grænmetisneysla barnanna hafi verið undir ráðlögðum gildum í þessari rannsókn bendir ýmislegt til þess að hún sé smátt og smátt að aukast. Ennþá er langt í land að ráðleggingum sé náð og því mikilvægt að ávaxta og grænmetisneyslu sé áfram haldið á lofti. Fiskneysla, sem undanfarin ár hefur mælst tiltölulega lág í öllum aldurshópum var hér í samræmi við ráðleggingar. Eflaust er hægt að þakka mötuneytum leikskólanna þennan góða árangur en auk þess hafa margir mismunandi aðilar vakið athygli á mikilvægi fiskneyslu og virðist það vera að bera árangur.

Vatnsdrykkja virðist hafa færst í aukana og var vatn annar algengasti drykkur barnanna á eftir mjólk. Neysla á gos- og svaladrykkjum virðist hafa dregist saman meðal ungra barna, bæði meðalneysla svo og hlutfall svo ungra barna sem neytir þessara drykkja. Viðbættur sykur í fæði barnanna var innan ráðlegginga. Börnin fylgdu einnig hreyfiráðleggingum nokkuð vel og náðu að hreyfa sig samkvæmt þeim sex af sjö dögum vikunnar.

Trefjaneysla barnanna var lág en það má skýra annars vegar með lítilli neyslu ávaxta og grænmetis en einnig því að neysla á grófri kornvöru var almennt lítil. Einungis helmingur barnanna neytti trefjaríks brauðs á meðan á skráningu stóð. D-vítamín neysla var að jafnaði undir ráðlögðum gildum, en aðeins um 30% barnanna náðu RDS fyrir D-vítamín. Einungis fimmtungur barnanna tók lýsi daglega. Neysla á harðri fitu og salti var yfir ráðleggingum.

Betur má ef duga skal

Meðvitund Íslendinga á mikilvægi hollrar fæðu og hreyfingar hefur aukist á síðastliðnum árum. Við eigum þó enn langt í land á ýmsum sviðum og nauðsynlegt er að halda áfram vinnu sem miðar að því að bæta mataræði allra aldurshópa og stuðla þannig að bættri lýðheilsu í landinu. Auka þarf grænmetis- og ávaxtaneyslu verulega, hvetja þarf til neyslu á trefjaríku kornmeti og ástæða er til þess að hvetja til almennrar notkunar þorskalýsis, þar sem þorskalýsi er einstaklega góður D-vítamíngjafi. Hlúa þarf að drykkjarvenjum barna, hvetja til vatnsdrykkju en mikilvægt er að stilla neyslu á gos- og svaladrykkjum í hóf.

Á undanförnum árum hefur verið leitast við að draga úr saltnotkun í matvælaiðnaði hérlendis og er mikilvægt að halda þeirri vinnu áfram þar sem aðaluppspretta salts í mataræði Íslendinga eru iðnaðarframleiddar vörur. Einnig er ástæða til þess að halda áfram að hvetja til notkunar á mjúkri fitu í stað harðrar fitu þar.

Áður hefur komið út skýrsla með niðurstöðum könnunar á mataræði 9 og 15 ára barna á Íslandi.

 

Tekið af vef www.lydheilsustod.is