Þeir sem hafa meiðst illa á hné vita vel hversu erfiðir slíkir áverkar geta verið. Færri vita að hnémeiðsli geta leitt til þess að brjóskfrumur í hnénu drepist og að slíkt leiði á endanum til slitgigtar.
Brjósk er þess eðlis að það brotnar stöðugt niður og endurnýjar sig eins og margir aðrir vefir, t.d. húðin.
Í nýrri rannsókn sem greint var frá í New York Times í síðustu viku kemur fram að við högg á hné drepast brjóskfrumur í hnénu. Við dauða frumnanna spillist endurnýjunin á því svæði og brjóskið endurnýjar sig ekki á sama hátt og áður. Þessar skemmdir sjást ekki við fyrstu sýn en leiða síðar til slitgigtar. Engin lækning er til við slitgigt þótt ýmis lyf slái á einkennin og gigtin versnar með aldrinum.
Ungt fólk með gömul hné
Ein þeirra sem unnu að rannsókninni er dr. Constance R. Chu. Í viðtali við New York Times benti hún á að slitgigt var áður að mestu bundin við ellilífeyrisþega. Nú er hún sífellt algengari meðal ungs fólks, ekki síst íþróttafólks sem meiðst hefur á hnjám. Algengustu áverkarnir á hnjám eru slitin krossbönd en talið er að í Bandaríkjunum séu framkvæmdar um 175.000 aðgerðir á ári til að gera við krossbönd í hnjám. Dr. Chu sagði að aðgerðunum hafi fjölgað á undanförnum árum eftir því sem keppnisíþróttir ungmenna hafi orðið vinsælli. „Flestir bæklunarlæknar hafa meðhöndlað ungt fólk með
mjög gömul hné.“ Rannsóknin bendi til þess að slit á krossböndum skaði ekki aðeins krossböndin heldur einnig brjóskfrumurnar í hnjánum. Slíkt geti leitt til sársauka og bæklunar.
Erfitt er að greina áhrifin á brjóskið fyrr en langt er um liðið. Því hefur dr. Chu mælt með því að íþróttamaður sem meiðist á hné hlífi því eftir að hnéð virðist hafa jafnað sig.
Hlaupurum til uppörvunar er rétt að ítreka að rannsóknin tekur einungis til þess sem gerist þegar íþróttamenn meiðast illa á hnjám. Stutt er síðan New York Times fjallaði um að rannsókn hefði sýnt fram á að hlaup færu ekki illa með hnén.
Ferill búinn, slitgigt komin
Dr. Helgi Jónsson, sérfræðingur í gigtarlækningum við Landspítala – háskólasjúkrahús, segir að langt sé síðan sýnt hafi verið fram á tengsl á milli áverka á hnjám og slitgigtar. Í
fyrrnefndri rannsókn sé fjallað um hvernig áverkar orsaka skemmdir á brjóski og dauða brjóskfrumna. „Þetta hefur mest verið rannsakað hjá fótboltamönnum. Það er enginn vafi á því að atvinnumenn eða hálfatvinnumenn í fótbolta eru í mjög aukinni hættu á að fá slitgigt í hné, eftir áverka, liðþófatökur, speglanir og ýmislegt sem tengist áverkunum.
Margir eru komnir með slitgigt þegar ferlinum lýkur,“ segir hann.
Tæklingarnar slæmar
Helgi tekur fram að íþróttir og hreyfing almennt sé góð fyrir líkamann og liði hans. Íþróttir séu á hinn bóginn misjafnlega hliðhollar hnjánum. „Við sjáum minna slit hjá sundmönnum og golfurum en meira hjá keppnisfólki, svo sem maraþonhlaupurum og fótboltamönnum. Einhvers staðar þarna á milli eru mörkin. Og þau eru gríðarlega einstaklingsbundin. Það sem oft spilar inni í eru þessir fjárans áverkar, sérstaklega hjá fótboltamönnum með öllum þessum tæklingum sem eru í fótboltanum.“ Fólk verði einnig
að forðast ofreynslu því jafnvel þótt t.d. hjólreiðar séu almennt hollari fyrir hnén en hlaup geti menn ofgert sér. „Atvinnuhjólreiðakappar, þeir eyðileggja í sér hnén.“
tekið úr grein sem birtist á www.mbl.is þ.14.12.2009