Bagg er bögg“ er nýtt átaksverkefni Jafningjafræðslu Hins hússins, Knattspyrnusambands Íslands og Lýðheilsustöðvar til að sporna við aukinni munntóbaksnotkun hjá ungu fólki. Andlit átaksins eru Alfreð Finnbogason landsliðsmaður í knattspyrnu og Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðskona í knattspyrnu ásamt Rúnari Guðbjartssyni og Sigríði Ólafsdóttur.
Verkefninu var hleypt af stokkunum með blaðamannafundi fyrir skemmstu. Á fundinum voru frumsýnd veggspjöld og bæklingar sem höfðu verið hönnuð sérstaklega fyrir átakið. Þessu efni verður dreift til íþróttafélaga, skóla og félagsmiðstöðva í haust og Jafningjafræðslan mun einnig halda fræðslufundi um munntóbak fyrir knattspyrnuiðkendur í 2. og 3. flokki í vetur.
Jón Heiðar Gunnarsson framkvæmdastjóri Jafningjafræðslunnar, Viðar Jensson verkefnastjóri á Lýðheilsustöð og Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ ræddu við blaðamenn um munntóbak og verkefnið.
Viðar Jensson verkefnastjóri á Lýðheilsustöð benti á að á sama tíma og reykingar hafa verið að dragast saman í mörg ár er munntóbaksneysla ungs fólks að aukast.
Einnig að almennt er samanburður á munntóbaksnotkun og reykingum ekki góður eða gagnlegur, því það er fátt eins hættulegt og að reykja. Það sé eðlilegra að bera saman munntóbaksneyslu við það að nota munntóbak einfaldlega ekki.
Því miður sé það þó staðreynd að neysla munntóbaks hefur verið að aukast nokkuð mikið undanfarin ár. Það komi fram í könnunum sem Lýðheilsustöð hefur látið gera meðal ungs fólks á aldrinum 16-23 ára. Samkvæmt tveimur könnunum, seint á síðasta ári og svo núna aftur í vor kemur í ljós að 20% pilta á aldrinum 16-23 ára nota munntóbak og um 15% daglega. Þessi aukning sjáist einnig í framleiðslutölum á neftóbaki ÁTVR en aðeins á tveimur árum frá 2007 hefur framleiðslan aukist um 7 tonn, úr tæpum 17 tonnum í tæp 24 tonn í fyrra.
Reynslan frá Svíþjóð þar sem munntóbak er leyft og framleitt er að neyslan sé meiri og nær upp alla aldurshópa auk þess sem hún er umtalsverð meðal kvenna.
Tannheilsa, munntóbak og reykingar
Tóbaksnotkun hefur áhrif á tannheilsuna. Langvarandi reykingar geta haft þau áhrif að tennurnar gulna og hætta er á tannholdssjúkdómum sem erfitt getur verið að lækna.
Munntóbak
Talið er að notkun á reyklausu tóbaki hafi aukist verulega á undanförnum arum, sérstaklega hjá ungu fólki.
Reyklaust tóbak er samheiti yfir þær tegundir tóbaks sem er tuggið eða tekið í vör eða nös:
- skro – heil tóbaksblöð sem eru tuggin
- snuff eða snus – blöðin mulin í duft og tekin í nefið eða sett undir vör
Ef munntóbak er notað í langan tíma þá getur það haft mikil og slæm áhrif á munnheilsuna. Tennur gulna og hætta er á að fá ýmsa munnsjúkdóma. Í munntóbaki eru sætuefni sem geta valdið tannskemmdum og ertandi efni sem geta valdið óafturkræfum skemmdum á tannholdi og slímhúð.