Athyglisbrestur og ofvirkni, oft kallað ADHD í daglegu tali, er taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt snemma fram eða fyrir 7 ára aldur og getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Athyglisbrestur og ofvirkni er algerlega óháð greind. ADHD er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir “Attention Deficit Hyperactivity Disorder” eða athyglisbrest og ofvirkni.
Algengi / tíðni ADHD
Nýjar rannsóknir sýna að 5-10% af hundraði barna og unglinga glíma við ofvirkni sem þýðir að 2-3 börn með ADHD gætu verið í hverjum bekk að meðaltali í öllum aldurshópum. Auk þess geta börn haft vægari einkenni. Í hópi barna með ADHD eru þrír drengir á móti hverri einni stúlku. Nýjar rannsóknir benda þó til að fleiri stúlkur séu með ADHD en talið hefur verið, en þær koma síður til greiningar. Nýjar bandarískar rannsóknir sýna 4,4% algengi ADHD hjá fullorðnum.
Hvað veldur ADHD?
Orsakir ADHD eru líffræðilegar og því er ekki um að kenna umhverfisþáttum, t.d. slöku uppeldi eða óheppilegum kennsluaðferðum. Rannsóknir benda til að orsaka sé að leita í truflun í boðefnakerfi heila á stöðum sem gegna mikilvægu hlutverki í stjórn hegðunar. Erfðir gegna mikilvægu hlutverki, talið er að erfðir útskýri 75-95% ADHD einkenna. ADHD getur einnig komið fram í tengslum við sjúkdóma eða slys, t.d. höfuðáverka eða áföll á meðgöngu, og hún fylgir oft öðrum þroskatruflunum.
Hvernig lýsa einkenni ADHD sér?
Þrír meginflokkar einkenna koma fram:
Athyglisbrestur kemur fram í því að barnið eða unglingurinn á erfitt með að einbeita sér að viðfangsefnum sínum, sérstaklega ef verkefnið krefst mikillar einbeitingar. Heimanám er þeim oft mjög erfitt. Þau eiga erfitt með að koma sér að verki, eru auðtrufluð og oft hvarflar athyglin í miðju kafi að einhverju öðru og verkefnið gleymist. Athyglisbresti fylgir yfirleitt gleymska og hlustunin er ekki góð. Skipulagserfiðleikar eru nær alltaf fylgifiskar athyglisbrests og oft er tímaskyni áfátt. Þó er athyglisbresturinn ekki alltaf til staðar og ef verkefnið er nógu spennandi og tilbreytingaríkt, t.d. tölvuleikir, getur komið fram nánast ofureinbeiting þannig að barnið dettur hreinlega úr sambandi við umhverfi sitt. Athyglisbrestur getur haft margvíslegar afleiðingar á námshæfni en hann kemur oft ekki í ljós fyrr en barnið byrjar í skóla og meira fer að reyna á athyglina.
Hreyfióróleiki lýsir sér þannig að börnin eiga erfitt með að sitja kyrr. Þau iða í sæti og eru fiktin og stöðugt á ferð og flugi. Þau tala oft mikið og liggur oft hátt rómur. Hreyfióróleiki er oft mest áberandi á yngri árum.
Hvatvísi kemur þannig fram að börn eiga erfitt með að bíða, þau grípa fram í og ryðjast inn í leiki og samræður annarra. Þeim er hætt við að framkvæma og gera hluti án þess að hugsa um afleiðingar gerða sinna en það kemur þeim bæði í vandræði og hættu.
sjá nánar á www.adhd.is