Vefjagigt

Vefjagigt er fjölkerfa sjúkdómur sem skerðir í flestum tilfellum lífsgæði fólks sem þjáist af honum. Hann tekur á sig fjölbreytta mynd og einkenni hans geta breyst dag frá degi. Algengi er hærra meðal kvenna en karla og sjúkdómurinn getur lagst á fólk á öllum aldri þó hann sé algengastur meðal kvenna á miðjum aldri. Áhættuþættir eru m.a. erfðir, andleg áföll, líkamlegir áverkar, svefntruflanir og langvarandi streita.

Helstu einkenni vefjagigtar eru verkir, þreyta, svefntruflanir, stirðleiki, liðverkir, viðkvæmni fyrir kulda, fótapirringur, dauðir fingur, þvagblöðrueinkenni, höfuðverkur, dofi eða þyngsli í útlimum, þroti í höndum eða í fótum. Einnig geta andleg einkenni verið til staðar svo sem vanlíðan, depurð og kvíði ásamt minnis- og einbeitingarleysi.

Meðferð á vefjagigt er yfirgripsmikil og ætti að vera undir höndum fagaðila. Hún felur m.a. í sér að draga úr andlegu álagi, streitu og kvíða, bæta svefn og mataræði og jafnframt ná fram slökun og hvíld. Meðferð er alltaf einstaklingsbundin en það meðferðarform sem reynist oftast best er hreyfing. Miklu máli skiptir að finna hreyfingu sem hentar hverjum og einum því annars er hætta á að einkenni geti versnað. Til að hámarka árangur þarf að stunda þjálfun reglulega því áhrifin dvína þegar henni er hætt.

Best er að hafa þjálfun sem fjölbreyttasta og vinna með þol, styrk og liðleika. Mikilvægt er að fara rólega af stað og bæta stigvaxandi í. Þjálfun krefst orku og þar sem hún er oft af skornum skammti hjá þessum hópi fólks er aukin hætta á að ofgera sér í upphafi.

Þolþjálfun hefur gefið góða raun við að vinna á einkennum vefjagigtar og er það þjálfunarform sem virðist gefa mestan ávinning.  Þolþjálfun fer fram þegar púlsinn er á bilinu 60-85%  af hámarkspúlsi. Mikilvægt er að álag sé hæfilegt til að jákvæð áhrif þjálfunar komi fram, gott viðmið er að geta haldið uppi samræðum á meðan þolþjálfun á sér stað. Betra er að velja æfingar sem setja lítið álag á liði fram yfir æfingar sem valda höggálagi. Því henta sund, hjólreiðar, skíðavél og ganga betur heldur en hlaup og skokk.

Styrktarþjálfun eykur styrk og úthald vöðva. Vefjagigtarsjúklingar þola illa að gera hverja æfingu oft, því hentar betur að gera færri endurtekningar með léttum lóðum og skipta reglulega um æfingu. Við styrktarþjálfun er mikilvægt að gera æfingar þannig að ekki verði aukið álag á hryggjarsúlu. Miðað er við að hreyfa útlimi en halda sveigjum í hrygg eðlilegum. Æfingar þar sem líkamanum er haldið í sömu stöðu í langan tíma henta ekki þessum hópi því álag á vöðva verður of einhæft.

Ásamt styrktar- og þolþjálfun er mikilvægt að koma í veg fyrir stirðnun í liðum og vöðvum og því er nauðsynlegt að vinna samhliða með liðleika.

Taka þarf vefjagigtargreiningu alvarlega, því með réttri meðferð er hægt auka lífsgæði umtalsvert. Hreyfingu þarf að gera að lífstíl, með henni má draga úr sársaukaupplifun, minnka streitu og bæta svefn. Með þolþjálfun styrkist einnig hjarta-, lungna- og æðakerfi og þannig eykst afkastageta einstaklinga með aukinni orku.

Höfundar: Inga Hrund Kjartansdóttir og Ásdís Árnadóttir sjúkraþjálfarar á AFLi