Mjaðmagrindarverkir á meðgöngu

Forsíða » Fræðsla » Heilsa og næring » Mjaðmagrindarverkir á meðgöngu

Sumar konur finna fyrir verkjum í mjaðmagrind og/eða mjóbaki á meðgöngu, oft talað um grindargliðnun, grindarlos eða mjaðmagrindarverki. Á meðgöngu framleiðir líkaminn hormón sem kallast relaxín. Það veldur því að mjúkvefir líkamans verða teygjanlegri og mýkri og þar með talin liðbönd í mjaðmagrindinni. Líkamsstaða þungaðra kvenna breytist einnig á þann hátt að þyngdarpunktur líkamans færist framar en það getur valdið auknu álagi á mjóbakið. Einnig verður þyngdaraukning þegar á líður meðgönguna, það eykur álag á blóðrás, vöðva og liðumbúnað. Þessar breytingar verða hjá öllum barnshafandi konum en ekki allar finna fyrir miklum óþægindum vegna þeirra.
Einkenni mjaðmagrindaverkja geta komið frá spjaldliðum beggja vegna eða frá lífbeini. Verkir leiða þá oft út í mjaðmir, mjóbak, nára, innanverð eða aftanverð læri. Vöðvaspenna getur myndast í vöðvum sem festast við mjaðmagrindina og liðbönd geta tognað. Ósamhverfar hreyfingar og bolvindur geta aukið á verkina og því skiptir miklu máli að passa upp á líkamsstöðu við daglegar athafnir. Flestar konur losna alveg við mjaðmagrindarverki skömmu eftir fæðingu, sumar halda þó áfram að þjást af mjaðmagrindarverkjum allt upp í ár eða lengur frá fæðingu barns.
Ef mjaðmagrindarverkir eru farnir að hafa veruleg áhrif á daglegt líf borgar sig að leita ráða hjá læknum eða sjúkraþjálfurum sem fyrst. Þeir aðstoða þig við að finna rétta hreyfingu og að draga úr álagi og verkjum.
Nokkur ráð til sjálfshjálpar:
• Hugaðu að góðri líkamsstöðu í öllum daglegum athöfnum.
• Haltu eðlilegu göngulagi, ekki vagga í mjöðmum.
• Forðastu stiga ef það er í boði, annars taktu eitt þrep í einu með sama fót á undan. Notaðu handrið til stuðnings. Einnig er hægt að ganga upp og niður stiga frá hlið.
• Þegar þú sest inn í bíl, sestu þá niður í bílsætið, taktu um stýrið og lyftu fótum samsíða upp í bílinn um leið og þú snýrð þér um 90°.
• Notaðu snúningslak á nóttunni til að auðvelda snúninga.
• Notaðu kodda á milli fóta þegar þú liggur á hliðinni.
• Snúðu þér fyrst upp á hliðina og reistu þig þaðan upp úr rúmi.
• Forðastu að skúra og ryksuga.
• Ekki halda á innkaupapoka í annarri hönd, settu frekar minna í tvo poka og haltu á þeim með sitthvorri hendinni.
• Forðastu að halda á þungum hlutum.