Líkamsrækt - líka á efri árum

Forsíða » Fræðsla » Öldrun » Líkamsrækt – líka á efri árum

Það er misskilningur margra að halda að líkamsrækt sé eingöngu fyrir yngra fólk. Líkamsþjálfun fyrir eldra fólk er gríðarlega mikilvæg og sýna rannsóknir í þeim efnum að með reglubundinni hreyfingu er hægt að hægja á þeim öldrunarbreytingum sem verða í líkamanum með hækkandi aldri. Þessar breytingar eru meðal annars minnkað úthald, minni vöðvastyrkur, verra jafnvægi og minni viðbragðsflýtir. En þó að ákveðnar lífeðlisfræðilegar öldrunarbreytingar séu óhjákvæmilegar á þó hreyfingarleysi stærri þátt í slæmu líkamsástandi margra eldri borgara.

Líkamsrækt eldra fólks hefur verið að aukast og verða sýnilegri undanfarin ár, aðallega hjá fólki sem er er nýkomið á eftirlaun. Það er mjög jákvæð þróun, en betur má ef duga skal. Með markvissri, stigvaxandi þjálfun má bæta heilsu og líðan fólks á hvaða aldri sem er. Það er aldrei of seint að byrja. Dæmi um ávinning af líkamsþjálfun aldraðra eru til dæmis:

Aukinn vöðvastyrkur
Betra jafnvægi og þar af leiðandi minni byltuhætta
Aukið úthald við dagleg störf og tómstundir
Aukinn liðleiki
Hægir á beinþynningu
Bætt starfsemi hjarta og æðakerfis
Betri andleg líðan

Með líkamsþjálfun má bæta almenna færni og auka sjálfsbjargargetu fólks. Það eykur sjálfstæði og sjálfstraust, dregur úr líkum á þunglyndi og gerir öldruðum kleift að búa lengur heima.

80 ára og eldri

Sá hópur sem fer yfirleitt ekki mikið fyrir í umræðunni um líkamsþjálfun aldraðra eru þeir sem komnir eru yfir áttrætt. Hjá þeim aldurshópi skiptir reglubundin hreyfing miklu máli svo þeir hafi nægilegt þrek til þess að sjá sem lengst um sig sjálfir. Líkamlegt ástand fólks á þessum aldri getur verið mjög mismunandi, sumir eru ennþá fleygir og færir á meðan aðrir eru orðnir mjög lasburða.

Algengt er að fólk hætti að treysta sér eitt út úr húsi og er því háð utanaðkomandi hjálp til þess. Í slíkum tilvikum geta aðstandendur gert mikið gagn með því að hjálpa þeim aldraða að komast út og í göngutúr við hæfi. Síðan er hægt að fá sér kaffisopann á eftir. Stundum er það að ganga um íbúðina nóg fyrir viðkomandi, fara upp og niður stigann einu sinni til tvisvar, allt eftir getu hvers og eins.

Hvernig líkamsþjálfun hentar eldra fólki?

Léttar leikfimiæfingar er gott að gera heima og þar er vert að benda á morgunleikfimina í ríkisútvarpinu alla virka morgna klukkan 9:50.

Gönguferðir, sund og sundleikfimi er góð líkamsrækt og einnig er boðið upp á leikfimi fyrir eldri borgara á nokkrum stöðum, þó framboð á slíkri þjónustu þyrfti að vera meira. Eldra fólk er líka farið að sækja almennar líkamsræktarstöðvar í auknum mæli. Gott er að blanda saman þolþjálfun og styrktarþjálfun og æskilegt er að þjálfa sig 2-4 sinnum í viku.

Sjálfsagt er að ræða við lækninn sinn áður en byrjað er að stunda líkamsþjálfun.

Mikilvægt er að hafa áreynslu við hæfi, það er í lagi að svitna og finna fyrir örari hjartslætti á meðan á þjálfun stendur. Nauðsynlegt er að hlusta á eigin líkama og læra að þekkja viðbrögð hans við þjálfun og læra að skilja á milli hvenær um eðlileg viðbrögð við þjálfun er að ræða (svo sem hæfileg þreyta og létt mæði) og hvenær álagið er orðið of mikið. Ráðlagt er að stöðva þjálfun ef fólk finnur fyrir svima, ógleði, mikilli mæði, verk í brjóstinu eða ónotatilfinningu í líkamanum.

Þegar byrjað er að hreyfa sig er gott að fara rólega af stað, og smá bæta við álagið. Það er ekkert því til fyrirstöðu að byrja þjálfun strax í dag.

Gangi ykkur vel!

Sigrún B Bergmundsdóttir og Ylfa Þorsteinsdóttir sjúkraþjálfarar og félagar í Félagi sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu (FSÖ). 

www.lydheilsustod.is