Brjósklos
Bakverkir eru mjög algengt vandamál. Rannsóknir sýna að 75% fólks fær bakverki einhvern tíma á ævinni, í flestum tilfellum eru þessir verkir tiltölulega meinlausir og einungis 1-3% fá það sem kallast brjósklos.
Hryggsúlan er sett saman úr 26 hryggjarliðum og eru þeir tengdir saman af brjóskþófum (hryggþófum). Þessir þættir raðast upp í súlu sem umlykur mænuna og styður við efri hluta líkamans. Brjóskþófarnir sem tengja saman hryggjarliðina eru samsettir úr bandvefshring sem liggur umhverfis hlaupkenndan kjarna. Brjóskþófinn er 80% vatn sem gerir hann mjög teygjanlegan og eykur þar með hreyfigetu hryggjarins sem er nauðsynleg fyrir athafnir daglegs lífs, auk þess sem liðþófarnir dempa höggin sem hryggurinn verður stöðugt fyrir, t.d. við hlaup og gang.
Á milli hryggjarliðanna ganga taugar út úr mænunni og í þeim eru taugaþræðir sem sjá um hreyfingar vissra vöðva, skyntaugar sem flytja boð um snertingu, hita og sársauka frá ákveðnum húðsvæðum og innri líffærum. Þar að auki eru taugaþræðir sem tilheyra ósjálfráða taugakerfinu sem flytja m.a. boð til æða og kirtla.
Brjósklos á sér stað þegar kjarninn í brjóskþófunum, sem liggja milli hryggjarliðanna, þrýstir á bandvefshringinn og veldur því að hann bungar út eða rifnar. Brjósklosið getur farið beint aftur og þrýst á mænuna (miðlægt brjósklos) eða út til hliðar (hliðlægt brjósklos) .
Brjósklos í mjóbaki veldur verk í baki sem getur leitt niður í annan fótinn auk skyntruflana og máttleysis eða lömunar vöðva. Verkinn leiðir oftast niður eftir rasskinn, læri að aftanverðu, kálfa og jafnvel niður í fót. Ef brjósklos á sér stað í hálshrygg leiðir verkinn oft út í handlegg auk skyntruflanna og máttleysis í handlegg og hendi.
Brjósklos verður oftast í lendarhrygg (mjóbaki) og er það algengt hjá einstaklingum á aldrinum 30-50 ára. Brjósklos í hálsliðshlutanum og brjósthluta hryggjarins er sjaldgæfara. Í sumum tilfellum er ekki nein þekkt ástæða fyrir því að þetta á sér stað, en hrörnun á bandvefshringnum getur valdið því að hann gefur sig og byrjar að bunga út. Brjósklos getur átt sér stað vegna slyss, rangri líkamsbeitingu við erfiða líkamlega vinnu, líkamsstöðu eða einhæfs endurtekins álags.
Hættumerki
Fólk þarf að hugsa vel um það hvernig það beitir sér við vinnu. Varast ber kyrrsetu í lengri tíma og endurteknar þungar lyftur eða snúning á baki eru áhættuþættir. Ef þú upplifir sársauka í bakinu við þessar hreyfingar, dofa eða náladofa er skynsamlegt að leita til læknis. Ef þú ert með mikinn versnandi sársauka vikum saman eða verri en þú hefur áður upplifað, er einnig rétt að leita læknis.
Hér verða talin upp nokkur einkenni, sem eru öll mjög sjaldgæf, en ef þú ert með bakverki og færð skyndilega eitthvað af þessum einkennum er mikilvægt að þú leitir strax til læknis.
• Erfiðleikar með að kasta af sér þvagi eða stjórnun á þvaglátum.
• Dofi í kringum endaþarm eða kynfæri.
• Dofi eða náladofi og máttleysi í báðum fótum.
• Óstöðugleiki í fótum.
Líkamsþjálfun er öllum nauðsynleg hún er bæði fyrirbyggjandi og er einnig nauðsynleg fyrir þá sem eru að ná sér eftir bakverki. Mikilvægt fyrir þá sem eru viðkvæmir í baki að forðast líkamsþjálfun þar sem mikið er um snöggar hreyfingar eins og í fótbolta og lyftingum, betra er að ganga, hjóla eða synda. Styrkja ber magavöðva og bakvöðva til að gera hryggsúluna stöðuga auk þess sem gott er að teygja á baki og mjöðmum. Þjálfun er mikilvægur hluti endurhæfingar og gott er að byrja að þjálfa sig strax og maður treystir sér til, þó er mikilvægt að byrja rólega og forðast hraðar og flóknar æfingar. Taka léttar styrktaræfingar með litlu álagi og best er að fá leiðsögn sjúkraþjálfara.
Með réttri meðhöndlun hjá læknum og sjúkraþjálfurum er mögulegt að verða einkennalaus og/eða halda einkennum niðri. Í þeim tilfellum þar sem meðferð hefur ekki áhrif eða eitthvað af hættumerkjunum sem talin voru upp hér að ofan eiga við, er líklegt að uppskurður sé eina lausnin. Sem betur fer geta flestir orðið einkennalausir án þess að gripið sé til uppskurðar en það krefst tíma og þolinmæði.
Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.