Afrifubrot í ökkla

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Ökklameiðsli » Afrifubrot í ökkla

Orsakir

Mjög kröftugt snúningsálag á ökklann getur valdið því að liðböndin togna og  beinhimna rifnar þar sem liðböndin tengjast beininu. Í öðrum tilfellum getur brotnað upp úr beinhimnunni þegar að beinin rekast á hvert annað með miklum krafti. Beinhimnuafrifa getur komið fyrir á öllum beinum í fætinum, þar sem sinar eða liðbönd tengjast þeim.

Einkenni

Verkir þegar þrýst er utanvert á ökklann og við teygjur á sinum og liðböndum sem tengjast beininu. Oft fylgir bólga og mar þessum meiðslum.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum (RICE meðferðin). Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt frá byrjun, þá minnkar bæði blæðingin og bólgan, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær fyrr bata.

Skoðun

Skoðun hjá lækni er yfirleitt nóg til að greina meiðslin og viðkomandi er þá sendur í röntgenmyndartöku til að sjá hversu slæmt brotið er. Stór brot sjást vel á röntgen myndum en oft getur verið erfitt að sjá minni brotin. Ef engin brot hafa greinst við röntgen skoðun  en einkennin eru viðvarandi, er hægt að senda viðkomandi í ómskoðun eða segulómun til frekari greiningar.

Meðferð

Forðast allt álag sem veldur verkjum. Stór brot getur þurft að lagfæra með skurðaðgerð en þau minni þarfnast þess ekki og getur notkun ökklaspelka komið að gagni til að minnka álagið á ökklann.
Í sumum tilfellum eru einkennin mjög langvarandi og verkir hverfa ekki þrátt fyrir minnkað álag. Ástæðan fyrir því getur verið bólga í vefjunum í kringum brotstaðinn. Í slíkum tilfellum geta bólgueyðandi töflur eða bólgueyðandi sprautur hjálpað.
Meðferð hjá sjúkraþjálfara ákvarðast af alvarleika brotsins og hvort viðkomandi hefur þurft að fara í aðgerð eða ekki.

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.