Hásinarbólga

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Leggir » Hásinarbólga (Achilles tendinitis)

Orsakir

Hásinin er  stærsta og öflugasta sin líkamans. Tveir stærstu kálfavöðvarnir (gastrochnemius, og soleus)  mynda sameiginlega sin, hásinina.
Hásinin tengist svo á hælbeininu (calcaneus). Veikasti hluti hásinarinnar er u.þ.b. 3 cm ofan við festuna á hælbeininu.

Við síendurtekið, mikið og/eða rangt álag, getur myndast bólga í hásininni. Hásinarbólga kemur yfirleitt smám saman og líkurnar á því að fá hásinarbólgu aukast með aldrinum.

Einkenni

Verkur við álag á hásinina (hlaup og hopp), þegar þreifað er á henni eða þegar hún er teygð.
Verkurinn eykst við álag og oft er sinin mjög stíf fyrst á morgnana.  Oft er hægt að finna þykknun í sininni u.þ.b. tveimur fingurbreiddum fyrir ofan hælbeinið og er staðurinn þá mjög snertiaumur. Teygjanleiki hásinarinnar minnkar þegar hún er bólgin og eru auknar líkur á hásinarsliti við áframhaldandi íþróttaiðkun.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum – RICE meðferðin.

Skoðun

Við væg einkenni á byrjunarstigi, sem koma smám saman og versna ekki skyndilega, er ekki nauðsynlegt að leita til læknis. Í tilfellum þar sem einstaklingurinn finnur smell eða skyndilegan sársauka í hásininni skal leita strax til læknis eða sjúkraþjálfara til að útiloka slit á hásin (eða hluta hennar) eða slit á soleus vöðvanum.
Ef ekki er jafn og stöðugur bati í endurhæfingu, ætti viðkomandi að fara í ómskoðun. Í ómskoðun er hægt að meta hversu alvarleg og hvers eðlis meiðslin eru: bólga í sininni (tendinitis), örvefsmyndun í sininni (tendinosis), kölkun í sininni, bólga í sinaslíðrinu sem umlykur hásinina (peritendinitis), slímsekkjarbólga (bursitis), sem og rifur og slit að hluta til í sininni.

Meðferð

Meðferð á hásinarbólgu felst aðallega í því að draga úr álagi á sinina (hlaup og hopp). Það er ekki þörf á að hætta þjálfun, heldur ætti að breyta henni og er jafnan óhætt að gera allt sem ekki veldur verkjum í sininni. Það er hægt að viðhalda úthaldi og styrk t.d. með sundi og hjólreiðum (pedali er þá hafður undir hæl til að hlífa hásin).
Ef viðkomandi leitar sér fljótt hjálpar hjá sjúkraþjálfara, getur hann náð sér á nokkrum vikum. Hafi verkurinn hefur verið til staðar í marga mánuði og ef ómskoðun leiðir í ljós þykknun og breytingar í sininni, getur endurhæfingin tekið nokkra mánuði (2-6 mánuði).
Sjúkraþjálfun flýtir fyrir og hafa rannsóknir sýnt að leggja eigi mikla áherslu á eccentrískar æfingar til að flýta fyrir bata og styrkja sinina. (sjá myndband).
Mikilvægt er að skóbúnaður sé í lagi (td. góðir hlaupaskór með dempun í hæl og stöðugum hælkappa). Gott er að nota skó með upphækkun í hæl til að minnka álagið á hásinina (innlegg eða gelpúði). Kæla skal sinina í hvert skipti sem hún verður aum í endurhæfingarferlinu. Ef framfarir eru mjög hægar, má íhuga notkun bólgueyðandi lyfja eða sprauta bólgueyðandi steralyfjum í kringun þykknunina á sininni.
Þegar sjúkraþjálfun og lyfjameðferð er fullreynd án árangurs, má beita skurðaðgerð.

Forvörn

Röng þjálfun er oftast ástæðan fyrir hásinarbólgu. Þegar vegalengdir, ákefð og tíðni við hlaup (og aðrar íþróttir) er aukin þarf að fara rólega og gæta þess að ofgera sér ekki. Þreyta og eymsli í stoðkerfi eru oft undanfari meiðsla. Forðast á allar hraðar breytingar á æfingaáætlun! Mikilvægt er að muna eftir styrktaræfingum, nota góðan skóbúnað og að teygja vel í lok æfinga.

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.