Aftanlæris tognun (Hamstring injury)

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Læri » Aftanlæris tognun (Hamstring injury)

Orsakir

Tognun í aftanlæris vöðvum er algeng meðal íþróttamanna og kemur til vegna of mikils álags sem vöðvarnir verða fyrir og vöðvaþræðir rifna.
Mjög algengt er að þetta gerist við spretthlaup þar sem að mikið álag verður á aftanlærisvöðvana. Íþróttamaðurinn finnur fyrir skyndilegum verk aftan í lærinu og í sumum tilfellum fellur hann sem „skotinn“ til jarðar. Aftanlærisvöðvarnir eru í raun þrír vöðvar m. biceps femoris, m. semitendinosus og m. semimembranosus. Þessir vöðvar virka yfir tvenn liðamót þ.e. rétta úr mjöðmum og beygja hné. Vöðvar sem fara yfir tvenn liðamót er hættara við meiðslum en vöðvar sem fara bara yfir eitt liðamót.

Einkenni

Vöðvatognunum er oft skipt upp í þrjá flokka eftir alvarleika meiðslanna.

1° tognun:  Það eru aðeins fáir vöðvaþræðir skemmdir og  viðkomandi finnur staðbundin eymsli í vöðvanum eftir átök, sumir upplifa þetta sem stífleika eða krampa í vöðvanum.

2° tognun:  Þá eru mun fleiri vöðvaþræðir skemmdir og vöðvinn í raun að hluta til rifinn. Viðkomandi finnur skyndilegan verk í vöðvanum sem er sterkari en við 1° tognun. Það er       sársaukafullt að láta þrýsta á vöðvann og verkir við að teygja og spenna vöðvann. Nokkrum dögum eftir meiðslin kemur yfirleitt mar í ljós aftan á lærinu.

3° tognun: Þá er vöðvinn alveg rifinn og um alvarlegt ástand að ræða.  Viðkomandi finnur skyndilegan verk (eins og bruni eða hnífsstunga) aftan í lærinu og getur ekki gengið verkjalaus. Nokkrum dögum eftir meiðslin kemur yfirleitt mar í ljós aftan á lærinu.  Við 3° tognun er oft hægt að sjá og finna skemmdina í vöðvanum.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum (RICE meðferðin). Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt frá byrjun, þá minnkar bæði blæðingin og bólgan, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær fyrr bata.

Skoðun

Þegar um væg meiðsli er að ræða þ.e. viðkomandi hefur smá eymsli og engin vandamál við gang, þá er yfirleitt ekki þörf að læknisskoðun.
Ef um 2° og 3° tognun er að ræða þá skal leita til læknis til að fá rétta greiningu á meiðslin og alvarleika þeirra. Venjulega nægir almenn skoðun hjá lækni til að staðfesta greininguna, en ef um einhvern vafa er að ræða þá er ráðlegt að senda viðkomandi í ómskoðun eða segulómun sem henta best til greiningar á slíkum meiðslum. Því meiri sem skemmdin og blæðingin er því lengri tíma tekur endurhæfingin.

Meðferð

Meðferðin felst  yfirleitt í minnkuðu álagi og endurhæfingu hjá sjúkraþjálfara. Í undantekningar tilvikum gæti viðkomandi þurft á skurðaðgerð að halda.
Nauðsynlegt er að gefa vöðvum hvíld til að jafna sig eftir meiðsli en margir virðast „gleyma því“ og fara of fljótt af stað aftur.  Það þarf ekki mikið álag á vöðvann til að breyta 1° tognun í 2° tognun eða 2° tognun í 3° tognun ef óvarlega er farið. Hafa ber í huga að verkirnir hverfa tiltölulega fljótt þó svo að vöðvinn sé ekki tilbúinn undir mikil átök. Þetta er ástæðan fyrir því að margir íþróttamenn togna aftur og aftur, enda voru þeir farnir að æfa aftur verkjalaust.
Þumalputtareglan er sú að við 1° tognun ætti viðkomandi að hvíla og endurhæfa í 2-3 vikur, 2° tognun tekur 4-6 vikur og 3° tognun getur tekið allt að 12 vikur að jafna sig.

Forvarnir

Gera styrktaræfingar fyrir aftanlærisvöðvana, en passa að styrktarhlutfall sé rétt á milli framanálæris- og aftanlærisvöðva. Rannsóknir sýna að eccentriskar styrktaræfingar veita bestu forvörnina (Nordic Hamstrings Program). Hafðu samband við íþróttasjúkraþjálfara sem kennir þér þessar æfingar.
Hita vel upp fyrir æfingar og keppni
Skokka sig niður og teygja eftir æfingar og keppni
Teygja reglulega til að viðhalda liðleika í vöðvunum.
Nota hitahlífar til að halda vöðvunum heitum og mjúkum, t.d. þegar íþróttamaðurinn finnur fyrir stífleika í lærinu eða er að byrja aftur eftir meiðsli.
Rétt næring getur skipt máli. Ef íþróttamaðurinn er ekki vel ?fylltur? af kolvetni fyrir æfingar og keppni, verður hann fyrr þreyttur sem eykur áhættuna á vöðvameiðslum.

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.