Golfolnbogi

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Olnbogameiðsli » Golfolnbogi (Epicondylitis medialis)

Orsakir

Við síendurtekið, mikið og/eða rangt álag, geta myndast litlar rifur í sinunum sem geta valdið bólgu í vöðvafestingunni (sjá mynd). Ef bólga myndast í vöðvafestingu þá er það merki þess álagið sé of mikið og ef ekki er dregið úr álaginu þá er hætta á “króniskum” bólgum sem erfitt er að meðhöndla.
Golfurum er hætt við að fá golfolnboga ef þeir spila mikið án þess að hafa tileinkað sér rétta sveiflu og rétt grip, en golfolnbogi getur líka komið til af annarskonar álagi.

Einkenni

Eymsli og verkir á innanverðum olnboga við (þar sem beinið stendur út) sem versna ef viðkomandi spennir vöðvana (beygja úlnlið) í framhandlegg sem festast á epicondyl medialis verkir aukast einnig við þreyfingu og þegar teygt er á sömu vöðvum.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum – RICE meðferðin. 

Skoðun

Venjulega nægir almenn skoðun hjá lækni eða sjúkraþjálfara til að staðfesta greininguna, en ef um einhvern vafa er að ræða þá er ráðlegt að senda viðkomandi í ómskoðun sem getur staðfest bólgubreytingar í vöðvafestingunni. Langvarandi bólgur í sininni geta valdið skaða á beinhimnunni sem og kölkun í mjúkvefjunum í kring (svipað hælspora) sem er oft mjög erfitt að meðhöndla. Því er mikilvægt að leita til læknis eða sjúkraþjálfara ef einkennin hverfa ekki þegar dregið hefur verið úr álagi.

Meðferð

Fyrst þarf golfari að lagfæra golfsveiflu sína með golfkennara. Í öðru lagi þarf að ganga úr skugga um að golfkylfur og grip henti viðkomandi golfara. Þessi atriði verða að vera í lagi til að endurhæfingin skili árangri og til að koma í veg fyrir endurtekin meiðsli.
Meðferðin saman stendur síðan af hvíld eða þá að dregið er úr álagi, vöðvateygjum ásamt styrktarþjálfun fyrir framhandleggsvöðva.
Mörgum finnst gott að nota teip eða sérstaka spelku sem er sett rétt fyrir neðan olnboga. Með þessu er komið í veg fyrir að vöðvarnir geti framkallað fullan kraft og þannig minnkar tog á vöðvafestur og verkurinn minnkar.
Ef þetta dugar ekki til er hægt að taka bólgueyðandi töflur eða fá bólgueyðandi sprautu í samvinnu við lækni.
Ef ekkert af því sem hér hefur verið nefnt virðist virka þá er neyðarúrræði að fara í skurðaðgerð. Útkoma skurðaðgerða er ekki 100% og ætti því ekki að huga að því nema að allt annað sé full reynt.

Hér er myndband með hugmyndum af æfingum sem gott er að gera þegar menn glíma við golfolnboga.

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.