Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur sett nýja reglugerð um hjálpartæki sem felur í sér verulega hækkun styrkja vegna tækjanna. Meginbreytingin frá reglugerðum nr. 460/2003 og nr. 752/2002 felst í hækkun styrkja, sem tilgreindir eru í fastri krónutölu í reglugerðunum. Vegna gengisbreytinga undanfarið hefur verð á innfluttum hjálpartækjum hækkað undanfarna mánuði. Þess vegna er talið nauðsynlegt að hækka styrkina sem til að koma til móts við vaxandi útgjöld sjúkratryggðra. Kostnaðarauki vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til nemur rúmlega 230 milljónir króna á ársgrundvelli. Um 45 milljóna króna hækkun er á styrkjum til kaupa á stómavörum, og er það um 40% hækkun.
Um er að ræða fyrstu reglugerð þess efnis sem sett verður samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og mun koma í stað reglugerðar nr. 460/2003, um styrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna hjálpartækja, og að hluta til reglugerðar nr. 752/2002, um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.
Fyrir utan hækkun styrkja eru lagðar til nokkrar efnislegar breytingar. Þær eru þessar helstar:
– Að styrkur til brunaumbúða verði 100%. Ekki er um mörg tilvik að ræða á ári en búnaður er dýr og þörf á endurnýjun á meðan sár eru að gróa.
– Að styrkur vegna kviðbelta verði aukinn í samræmi við spelkur almennt, þ.e. áfram 70% ef notkun er styttri en eitt ár, en verði 100% ef um alvarlegt langvarandi ástand er að ræða.
– Styrkupphæðir vegna gervibaðfóta eru hækkaðar úr 50% í 70%. Heimildin hefur ekki verið mikið nýtt og er skýringin talin vera of mikil hlutdeild notanda.
– Breyting á styrkjum til kaupa á tilbúnum bæklunarskóm þannig að sama upphæðin gildi fyrir alla, bæði börn og fullorðna. Þróunin síðastliðin 10 ár hefur verið í þá átt að tilbúnum bæklunarskóm hefur fjölgað en sérsmíðuðum fækkað.
– Lögð er til breyting á stómavörum þannig að val á stómaplötum verði aukið.
– Lagt er til að fjárveitingar vegna sáraumbúða verði fluttar til heimahjúkrunar heilsugæslunnar. Þetta er gert að beiðni heilsugæslunnar.
– Lögð er til breyting á gildandi reglum um öfluga rafknúna útihjólastóla fyrir börn og unglinga undir 18 ára aldri, þannig að þeir einstaklingar sem nú eiga rétt á rafknúnum hjólastól hafi val um það hvort þeir vilja öflugan rafknúin útihjólastól, án tillits til aldurs.
– Veittur hefur verið styrkur til kaup á hvíldarstólum og lyftustólum. Lagt er til að styrkur til kaupa á hvíldarstólum verði felldur niður og í staðinn veittur fastur styrkur til kaupa á lyftustólum fyrir þá sem eiga verulega erfitt með að standa upp úr stólum og eru alla jafna háðir hjólastól.
– Lagt er til að greiðsluþátttaka vegna dyra- og gluggaopnara/lokara hækki úr 90% í 100%.
– Að lokum er lagt er til að auka skilgreiningar í flokknum samtalshjálpartæki og bætt við flokki varðandi forrit fyrir samtal/nærsamskipti. Ennfremur að auka skilgreiningar á viðvörunarbúnaði og bæta við í flokkinn rafstýrðum dagatölum og minnishjálpartækjum.
Reglugerðin gildir frá 5. desember 2008.
tekið af vef www.heilbrigdisraduneytid.is