Skip to main content

Átakið Karlmenn og krabbamein hafið í annað sinn
Hægt að koma í veg fyrir þriðjung krabbameinstilfella með hollara mataræði, hreyfingu og breyttum lífsstíl. Styrktarmiðar til sölu í öllum helstu matvöruverslunum landsins. Allur ágóði af söfnuninni fer til fræðslu- og ráðgjafarstarfa.


?Karlmenn og krabbamein – lífsstíll, heilsa og mataræði? er yfirskrift tveggja vikna átaks Krabbameinsfélags Íslands sem hófst formlega í dag með keppni leikmanna úr A og B liði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og stjörnuliðs eldri landsliðsmanna í Vodafonehöllinni að Hlíðarenda. Þetta er í annað sinn sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir sérstöku átaki um karlmenn og krabbamein hér á landi og verður öllum ágóða af sölu styrktarmiða, herrabinda og slaufa varið til fræðslu og ráðgjafar við krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra.

?Rannsóknir sýna að hægt er að koma í veg fyrir allt að eitt af hverjum þremur krabbameinstilfellum með því að borða hollari mat, stunda líkamsrækt reglulega, stilla drykkju og sólböðum í hóf og halda sig frá reykingum,? sagði Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins, við upphaf átaksins í dag. Hvatti hún karla, einkum þá sem komnir eru á miðjan aldur, til að huga að heilsunni, bæði einkennum sem gætu verið fyrstu merki krabbameins, sem og lífsstílnum. ?Það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig og breyta um mataræði og það er aldrei of seint að hætta að reykja!?

Í tilefni átaksins skoruðu valinkunnar knattspyrnuhetjur, 40 ára og eldri, á ungu mennina í landsliðinu í innanhússfótbolta. ?Hættan á krabbameini eykst mjög eftir fertugt og við vildum leggja okkar af mörkum við að vekja athygli á þessum góða málstað,? segir Pétur Ormslev, fyrrverandi landsliðsmaður sem hefur sjálfur háð baráttu við krabbamein. ?Hreyfing og hollt mataræði getur skipt sköpum, ekki bara hvað krabbamein varðar heldur einnig almenna heilsu og vellíðan, og því vildum við nota þetta tækifæri til að sýna ungu mönnunum hvað við gömlu karlarnir getum!?

Styrktarmiðar, herrabindi og slaufur

Bæklingi um karlmenn og krabbamein verður dreift inn á öll heimili í landinu og auglýsingar birtar í fjölmiðlum og víðar. Bryddað er upp á nýbreytni í fjáröflun með sérstökum styrktarmiðum sem verða til sölu hjá öllum samstarfsaðilum átaksins, þ.á.m. öllum helstu matvöruverslunum landsins. Miðarnir kosta 250, 500 og 1.000 kr. og því ættu allir að geta látið eitthvað af hendi rakna til stuðnings átakinu.

Jafnframt verða til sölu þrílit herrabindi í öllum verslunum Herragarðsins til stuðnings átakinu. Þau kosta 4.990 krónur og tákna litirnir – blár, hvítur og fjólublár – þrjú algengustu krabbamein hjá körlum; blöðruhálskirtils-, lungna- og ristilkrabbamein.

Sérhannaðar slaufur til styrktar átakinu verða einnig boðnar fyrirtækjum í landinu til kaups á 1.000 krónur stykkið og hefur fyrirtækjasvið Pennans veg og vanda að sölu þeirra. Ágóði af átakinu fer til fræðslu og ráðgjafar við krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra.

Yfir 600 karlmenn á Íslandi greinast árlega með krabbamein

Að meðaltali greinast um 630 íslenskir karlmenn árlega með krabbamein. Flestir, eða um 190, greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli, 64 með lungnakrabbamein og 51 með ristilkrabbamein. Batahorfur þeirra sem greinast með krabbamein hér á landi eru almennt góðar en brýnt er að greina meinin snemma. Þegar karlmenn eru komnir yfir fertugt aukast líkurnar á því að fá krabbamein. Upplýsingar um helstu einkenni krabbameina er að finna á heimasíðu átaksins, www.karlmennogkrabbamein.is, og hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins (s. 540 1916/540 1912/540 1900/800 4040) er hægt að leita svara við spurningum af öllu tagi um krabbamein, bæði að kostnaðarlausu og nafnlaust. www.krabb.is

Styrktar- og söluaðilar átaksins

Alcoa Fjarðaál er aðalstyrktaraðili átaksins Karlmenn og krabbamein. Aðrir styrktaraðilar eru Margt smátt, Nicotinell og Sölufélag garðyrkjumanna.

Samstarfsaðilar Krabbameinsfélagsins og söluaðilar í átakinu eru: Bónus, Krónan, Nettó, Samkaup, Nóatún, Hagkaup, 11-11, Kjarval, Penninn, Eymundsson, Frumherji, Íslandspóstur, Herragarðurinn og ÍTR/sundlaugar Reykjavíkur. Lýðheilsustöð er einnig stuðningsaðili átaksins.

Sérstök vefsíða:
www.karlmennogkrabbamein.is

tekið af vef www.krabb.is