Skip to main content

Ný dönsk rannsókn sýnir að andlitsfarði fyrir börn getur verið varhugaverður. Rannsóknin leiddi í ljós að af þeim fimmtíu og fimm vörutegundum sem skoðaðar voru innihélt fimmtíu og ein þeirra efni sem geta verið skaðleg börnum.

Mörg börn hafa gaman af því að mála sig í framan, sérstaklega á öskudaginn sem nú er á næsta leiti. Sumir foreldrar kaupa þar til gerðan andlitsfarða til þessara nota en andlitsfarði ætlaður börnum fæst í mörgum leikfangaverslunum. Það getur hins vegar haft skaðleg áhrif á augu og húð barnsins að nota slíkan farða. Ný dönsk könnun, sem Upplýsingamiðstöð um umhverfi og heilsu í Danmörku lét gera, sýnir að af þeim fimmtíu og fimm vörutegundum sem skoðaðar voru innihélt fimmtíu og ein efni sem geta verið skaðleg fyrir börn. Niðurstöðurnar nú eru í samræmi við niðurstöður könnunar sem dönsk heilbrigðisyfirvöld gerðu fyrir tveimur árum.

Þau efni sem um ræðir eru ilmefni sem geta valdið ofnæmi og ýmis rotvarnarefni sem geta verið varasöm, eins og til dæmis Parabenar, en þá er leyfilegt að nota í litlu magni. Parabenar hafa hins vegar ekki verið rannsakaðir að fullu og grunur leikur á að efnin geti truflað hormónastarfssemi líkamans.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með andlitsfarða á Íslandi. Þær upplýsingar fengust þar í dag að ekki hafi verið gerð könnun á andlitsfarða fyrir börn hér á landi en þegar fréttir bárust af könnuninni árið 2008 hafi Umhverfisstofnun minnt fólk á að velja andlitsliti fyrir börn sín af kostgæfni.

Könnun Dana nú

Listi yfir vörurnar í dönsku könnuninni

Könnun Dana árið 2008

tekið af www.ruv.is