Skip to main content

Löngum hefur verið sagt að hláturinn lengi lífið og nú hefur ný vísindarannsókn leitt í ljós að þetta er staðreynd. Rannsóknin, sem unnin var á vegum Tækni- og náttúruvísindaháskólans í Þrándheimum í Noregi, leiðir í ljós að hláturinn bæði lengir lífið og bætir heilsuna.

Sven Svebak, prófessor í læknavísindum og sálfræði sem stýrði rannsókninni, segir skýringuna liggja í því að fólk með góða kímnigáfu sé ekki eins stressað og aðrir og glími við færri sjúkdóma.

„Við getum staðfest að fólk með kímnigáfu þróar með sér minna magn af stresshormónum og virðist betur í stakk búið til þess að takast á við erfiðar kringumstæður. Ónæmiskerfi þessara einstaklinga er betra, þarf að takast á við færri sjúkdóma og það dregur úr líkum á snemmbúnum dauðsföllum,“ segir Sven Svebak.

Tekur hann fram að erfitt sé að skilgreina góða kímnigáfu þar sem hún sé breytileg frá manneskju til manneskju, en bendir á að nokkur atriði eigi fólk með góða kímnigáfu hins vegar sameiginleg.

„Fólk sem mælist með góða kímnigáfu er yfirleitt frekar opið og félagslynt, ekki sérlega kvíðið, finnst gaman að leika sér og er félagslega virkt,“ segir Svebak. Bendir hann á að rannsóknir sýni einnig að allt að 50% af kímnigáfu fólks megi skýra með erfðafræðilegum þáttum, en hin 50% megi þjálfa upp með því m.a. að þjálfa hugsunarhátt sinn.

„Þegar við hlæjum þá hefur það sjálfkrafa jákvæð áhrif á líkamann. Þeir sem takast á við lífshættulega sjúkdóma með kímnigáfuna og kaldhæðnina að vopni eru yfirleitt sem lifa þessa sjúkdóma af. Þeir missa ekki sjónar af framtíðarmöguleikunum og tekst að halda í jákvæðnina,“ segir Martin Führ, sálfræðingur sem hefur sérstaklega rannsakað kímnigáfuna.

tekið af vef www.mbl.is 10.6.2010