Skip to main content

Einn af hverjum tíu fullorðnum einstaklingum í heiminum er of feitur, samkvæmt nýrri bresk – bandarískri rannsókn sem birt var í hinu virta læknatímariti The Lancet.

Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Rannsakendur á vegum Imperial College í London og Harvard háskóla í Bandaríkjunum rannsökuðu gögn um  líkamsmassastuðul, BMI, blóðfitu og blóðþrýsting á árabilinu 1980 til 2008.

Minna var um háan blóðþrýsting og hátt hlutfall blóðfitu í minna þróuðum ríkjum, en offita jókst í öllum heimshlutum.

Breskir karlar eru með sjötta hæsta líkamsmassastuðul í Evrópu og breskar konur verma níunda sæti á þeim lista.

Árið 2008 þjáðust 9,8% karla og 13,8% kvenna í heiminum af offitu, en líkamsmassastuðull þeirra var yfir 30.

Sambærilegar tölur fyrir árið 1980 eru 4,8% karla og 7,9% kvenna.

Íbúar Kyrrahafseyjanna hafa hæsta líkamsmassastuðul í heimi, þar er meðaltalið 34-35. Það er um 70% hærra en í sumum löndum í suð-austur Asíu og í Afríku.

Líkamsmassastuðull hækkaði mest í þeim ríkjum þar sem tekjur er hæstar. Mest var aukningin í Bandaríkjunum, en Nýja-Sjáland, Ástralía og Bretland fylgja fast á hælana.

Í nokkrum Evrópulöndum var nánast engin hækkun á líkamsmassastuðlinum á fyrrgreindu árabili; meðal þeirra eru Belgía, Finnland, Frakkland, Ítalía og Sviss.

Blóðþrýstingur mældist hæstur í löndum Austur-Evrópu og í Vestur-Afríku.

tekið af vef www. visir.is þ.4.2.2011