Skip to main content

Álagsmeiðsl fylgja oft störfum á sjó. Til að fyrirbyggja slík meiðsl er nauðsynlegt fyrir sjómenn að vera vel upplýstir um ráðleggingar fagmanna. Útvegsblaðið setti sig í samband við Ásdísi Árnadóttur, sjúkraþjálfara hjá Afl sjúkraþjálfun, og fékk ráðleggingar um hvernig fyrirbyggja má álagsmeiðsl. Hún bendir á margvíslegar leiðir að bættri líðan, en segir jafnframt að þrátt fyrir leiðbeiningar og handleiðslu fagfólks sé það á endanum hver og einn sem beri ábyrgð á eigin heilsu.

Hvers konar álagsmeiðsl eiga sjómenn helst hættu á að fá?
„Það fer eftir því hvers konar starfi viðkomandi sinnir. Ef menn eru að bogra við vinnu sína, eða lyfta hlutum í slæmri stöðu, er viðbúið að verkir komi fram í baki. Slæmar stöður og beiting geta einnig orðið til þess að menn fái útbungun/brjósklos í bak, sem getur verið mjög sársaukafullt og tekið tíma að jafna sig. Í því sambandi er sérlega varasamt að bogra og snúa upp á sig á sama tíma.
Ef menn eru með hálsinn í slæmri stöð er líklegt að álagseinkenni komi þá fram. Þar geta verkir geta komið í mjúkvefi, en einnig getur brjósklos orðið í hálsi líkt og í baki. Verkir tengdir brjósklosi leiða gjarnan niður útlimi og geta verið mjög sárir. Þeir sem vinna einhæfar hreyfingar með handleggjunum eiga á hættu að fá álagseinkenni í axlir, en einkenni geta líka komið fram í olnbogum eða úlnliðum.
Að vera stöðugt á vaggandi undirlagi eins og sjó veldur því að líkaminn þarf að vera spenntari en ella til að bregðast við breyttri stöðu. Veltingurinn er þó mismikill og væntanlega skiptir stærð og gerð skipa þar miklu máli. Það má þó búast við því að aukinn stífleiki/eymsli komi fram í vöðvum neðri útlima og bols, og þreyta í kringum hné,“ segir hún.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir slík álagsmeiðsl?
„Fræðsla við sjómenn er algjört lykilatriði. Þeir þurfa að fá fræðsluna áður en einkenni koma fram og gera ekki þau mistök að þjösnast áfram í slæmri líkamsbeitingu, þó þeir sé ungir og hraustir. Öll viljum við vera vel á okkur komin og verkjalaus, en það segir sig sjálft að ef við ætlum okkur að halda skrokknum í góðu formi þá verðum við að hugsa um hvernig við notum hann og fá leiðbeiningar ef þess þarf. Það er mikilvægt að það sem unnið er með sé í réttri hæð, svo forðast megi slæma stöðu á baki og hálsi. Einnig er aukið álag fyrir bakvöðva og axlir ef viðfangsefnið er of langt frá einstaklingnum, þá er vogararmurinn orðinn langur og álagið á líkamann meira fyrir vikið. Einnig er gott að hafa í huga að forðast síspennu í vöðvum. Vöðvar vinna vel þegar þeir spenna og slaka til skiptis, en ef þeim er haldið í stöðugri spennu þá verður fólk stíft og ómögulegt, eins og gjarnan gerist í hálsi og herðum.
Til þess að losa um stífa vöðva er tilvalið að nota svokallaðar frauðrúllur (e. foam rolls), sem njóta sífellt meiri vinsælda. Rúllurnar eru notaðar með þeim hætti að fólk setur líkamann á rúlluna, t.d. aftanvert læri, og rúllar sér fram og til baka. Þetta losar um hnúta og eymsli í vöðvum og er einnig talið mýkja upp bandvef. Best er að leita að aumu punktunum og rúlla ofan í þá. Einnig má nota rúlluna til að liðka brjóstbakið. Rúllurnar eru einfaldar í notkun og það væri tilvalið að hafa þær um borð í skipum,“ segir Ásdís.

Hvað eiga sjómenn að gera ef þeir finna fyrir verkjum í baki eða hnjám?
„Ekki leiða hlutina hjá sér heldur leita strax til læknis eða sjúkraþjálfara og fá ráðleggingar. Það er alltaf betra að grípa strax í taumana heldur en leyfa ástandinu að versna smám saman. Það er því miður algengt að fólk leiti sér ekki aðstoðar fyrr en það er orðið mjög slæmt.
 Þegar kemur að bakverkjum geta bakbelti nýst mönnum sem stuðningur, en það kemur ekki í staðin fyrir fræðslu og rétta líkamsbeitingu. En það getur vissulega nýst í sumum tilfellum.“

Mælirðu með því að sjómenn stundi almenna hreyfingu til að vinna gegn mögulegum álagsmeiðslum?
„Já, tvímælalaust. Regluleg og góð hreyfing hefur mikið að segja varðandi líðan fólks. Ef hreyfingar aðstaða er um borð er tilvalið að nýta sér hana, sérstaklega þeir sem eru á lengri siglingum. En ekki er síður mikilvægt að nýta vel tímann í landi.“

Hvaða úrræði bjóða sjúkraþjálfarar upp á?
„Sjúkraþjálfarar greina vandann, vinna á einkennum og finna leiðir til úrlausnar. Rétt fræðsla til fólks er það sem skiptir mestu máli til lengri tíma. Með því getur hver og einn dregið úr álagi og þannig verndað sinn skrokk.
Ég ráðlegg fólki að setja sig í samband við sjúkraþjálfara og fá ráðleggingar varðandi æfingar og hreyfingu, og hvað það getur gert sjálft til að hafa áhrif á sína líðan. Það þýðir ekki að dæma sjálfan sig úr leik, heldur þarf að leita leiða til að hafa áhrif á ástandið til betri vegar. Þó það sé ekki hægt að laga allt, þá er í flestum tilfellum hægt að hafa áhrif í rétta átt.
Hugsaðu vel um skrokkinn þinn, það gerir það enginn fyrir þig,“ segir Ásdís að lokum.