Hreyfiseðlarnir hafa rutt sér til rúms innan heilbrigðiskerfisins á norðurlöndum og verða nú innleiddir á Íslandi að frumkvæði SÍBS. Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára sem byggir á því að læknar heilsugæslunnar skrifi út seðil sem hljóðar upp á hreyfingu fyrir þá einstaklinga sem þeir telja að hafi meira gagn af slíkri meðferð en til að mynda lyfjagjöf.
Í tölublaðinu er fjallað um aukningu ótímabærra dauðsfalla í Evrópu vegna hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameina, langvinnrar lungnateppu og sykursýki. „Allt eru þetta sjúkdómar sem hægt er að draga verulega úr og, að einhverju leyti, fyrirbyggja með breyttum lífsstíl,“ segir í blaðinu.
Þar kemur einnig fram að skipulögð hreyfing sé öflugt meðferðarúrræði til að vinna á sjúkdómum og sjúkdóms- einkennum eins og langvarandi verkjum, kvíða, depurð, sykursýki, offitu, kransæðasjúkdómum, hjartabilunareinkennum, afleiðingum lungna- þembu, háum blóðþrýstingi, hækkuðum blóðfitum svo eitthvað sé nefnt. Þetta sé niðurstaða fjölda rannsókna. Veigamestu áhættuþættir þessara sjúkdóma eru slæmt mataræði, hreyfingarleysi, neysla tóbaks og áfengis. Það er því hægt að draga úr milljarða tapi samfélagsins auk allrar þeirra mannlegu þjáningar sem þetta veldur. Áhrifin má útskýra með því að benda á að tíunda hvert æviár glatist vegna ótímabærs dauða eða örorku hjá öllum Íslendingum 40 ára og eldri.
tekið af ruv.is þ.13.06.2013