Ásdís Árnadóttir, sjúkraþjálfari hjá Afli sjúkraþjálfun og hóptímakennari hjá World Class, gefur góð ráð til þeirra sem ætla að taka á í ræktinni í vetur. Hún segir mikilvægt byrjendur fái leiðbeiningar og byrji rólega.
Látum skynsemina ráða
Það er mjög skemmtilegt og hvetjandi að sjá árangur og að geta smám saman meira. Hér gildir þó að hafa stignun skynsamlega og hlusta á líkamann. Þannig má forðast meiðsli og afturför. Það er eðlilegt að finna fyrir smá harðsperrum eftir nýjar æfingar, auknar þyngdir eða hraða en ef verkir í stoðkerfi fara að gera vart við sig þarf að staldra við og endurskoða málið. Með réttri beitingu má forðast óæskilegt álag á liði. Fólk þarf fyrst að ná góðri stjórn á hreyfingum áður en það fer að bæta við þyngdum eða hoppum. Byrjendur ættu að fá leiðbeiningar og byrja rólega. Við eigum bara einn líkama, förum vel með hann.
Fjölbreytileiki æfinga
Blandið saman styrktar-, þol-, liðleika- og æfingum sem reyna á jafnvægi. Hafið æfingarnar fjölbreyttar, fólk fær fljótt leið á að gera alltaf það sama. Það er margt í boði fyrir utan hinn hefðbundna tækjasal eins og jóga, spinning, margs konar þol- og styrktartímar, dans og fleira.
Frístandandi æfingar
Þó það sé ekkert eitt sem hentar öllum, þá ráðlegg ég flestum að gera frístandandi æfingar eins og framstig, uppstig, hnébeygjur og þess háttar. Þar reynir á styrk, þol og jafnvægi. Þeir sem eru lengra komnir og ráða vel við hreyfinguna geta bætt hoppum við.
Góðir skór
Mikilvægt að vera í góðum íþróttaskóm og að þeir henti viðkomandi og þeirri hreyfingu sem fólk ætlar að vera í. Fólk þarf mis mikinn stuðning frá skóm og því þarf að velja vel. Ef skórinn styður ekki nægilega vel við þá er hætta á að fóturinn lendi ekki í góðri stöðu þegar stigið er niður og það hefur áhrif á stöðu og álag á aðra liði svo sem hné, mjaðmir og bak. Þetta skiptir ekki bara máli í hlaupum og hoppum heldur líka í styrktaræfingum og annarskonar þungaberandi æfingum.
Vatn á æfingum
Á æfingum er nauðsynlegt að drekka vel af vatni. Líkamleg geta minnkar strax og líkaminn fer að þorna. Ef fólk stundar langar úthaldsæfingar tapar það steinefnum með svita og getur þurft að drekka drykki sem innihalda slíkt.
Grein birtist í Fréttatímanum 28.8.2014