Skip to main content

Rúmlega helmingur þeirra ungmenna sem æfðu með íþróttafélagi á 12 mánaða tímabili þurfti læknisfræðilega aðstoð einu sinni eða oftar vegna íþróttameiðsla. Þeir sem æfðu meira en sex klukkustundir á viku voru fimmfalt líklegri til þess að hafa leitað læknisfræðilegrar aðstoðar en þeir sem æfðu sex klukkustundir eða minna.

Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar á algengi íþróttameiðsla, íþróttaþátttöku og brottfalli vegna meiðsla hjá 17 og 23 ára ungmennum. Rannsóknin náði til 457 ungmenna og er ein af mörgum sem eru byggðar á gögnum úr rannsókninni Atgervi ungra Íslendinga sem er langtímaheilsufarsrannsókn á ungmennum fæddum 1988 og 1994. Fjallað er ítarlega um rannsóknina í nýjasta Læknablaðinu, sem er meistaraverkefni Margrétar H. Indriðadóttur í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands.

Erlingur Jóhannsson, verkefnastjóri rannsóknarinnar og prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir blasa við að íþróttameiðsli hérlendis séu vandamál sem full ástæða sé til að taka mjög alvarlega. Ein sé sú staðreynd hversu margir leituðu til læknis innan ársins, en jafnframt að 8,4% af hópnum sem stundað hafði íþróttir hættu beinlínis vegna íþróttameiðsla. Meira álag og áhersla hjá fleirum á afreksíþróttir sé ein ástæða þessa.

„Það er eitthvað í þjálfuninni sem er ekki að virka og ekki alltaf reyndir og hæfir þjálfarar í kringum þetta fólk. Þetta er kannski hin hliðin á afreksmennskunni – meiðsli eru tíðari þegar meiri árangur næst í íþróttum,“ segir Erlingur og bætir við að um sé að ræða þátttöku hjá íþróttafélögum og heilsurækt. Heilsuræktarstöðvarnar verði að taka þetta til sín einnig og sjá til þess að hæfir þjálfarar séu að leiðbeina ungu fólki á faglegan hátt.

Á heimsvísu skortir rannsóknir á íþróttameiðslum barna og unglinga en þær fáu rannsóknir sem til eru benda til þess að algengið sé mikið. Staðan meðal íslenskra ungmenna virðist síst betri og því afar brýnt að efla íslenskar rannsóknir til þess að fá frekari vitneskju um íþróttameiðsli og fórnarkostnaðinn sem þeim fylgir.

Erlingur segir að samband á milli íþróttameiðsla og heilsuvandamála síðar á ævinni komi greinilega í ljós í rannsókninni. „Rannsóknin sýnir forspárgildi þess að íþróttameiðsli á unglingsaldri eru ávísun á verri heilsu síðar í lífinu,“ segir Erlingur og bætir við að það undirstriki mikilvægi rannsókna og virkra forvarna.

Birtist í Fréttablaðinu 8. október 2015 – http://www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/151008.pdf