Börn og hreyfing
Börn eiga að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag
Almennt er ráðlagt að börn og unglingar hreyfi sig í minnst 60 mínútur á dag. Það er hins vegar ljóst að aðeins tæpur þriðjungur íslenskra nemenda í 6., 8. og 10. bekk nær þessu markmiði 5 daga vikunnar eða oftar.
Foreldrar gegna lykilhlutverki og geta haft mikil áhrif á að barnið fullnægi hreyfiþörf sinni. Þeir geta t.d. takmarkað þann tíma sem varið er í kyrrsetu svo sem í tölvuleiki og sjónvarpsáhorf og þess í stað hvatt og stutt barnið til frjálsra leikja og mögulega til þátttöku í skipulögðu tómstundastarfi sem felur í sér hreyfingu. Þá er mikilvægt að taka tillit til áhuga og getustigs hvers og eins og leita eftir tilboðum við hæfi. Það sem hentar einum hentar ekki öllum.
Ef barnið er mikið fyrir að ,,dunda sér“ getur það þurft meiri hvatningu til hreyfingar en annars. Foreldrar eru fyrirmyndir og sameiginleg hreyfistund fjölskyldu er verðmæt gæðastund.
Ein besta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að nota eigin orku til að ferðast á milli staða. Er verið að keyra barnið styttri vegalengdir, s.s. í skóla eða tómstundastarf sem það gæti annars gengið eða hjólað?
Hlakkar barnið til íþróttatíma eða reynir það að koma sér undan þátttöku?
Skólar gegna einnig ábyrgðarmiklu hlutverki þegar kemur að heilsueflingu barna og er mikilvægt að foreldrar fylgist vel með og taki þátt í því starfi. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla eiga nemendur að fá lágmark 3 kennslustundir í íþróttum í hverri viku skólaársins. Þar af skal nemendum ætlaður a.m.k. einn sundtími í viku.
Samtals þýðir þetta minnst 102 kennslustundir í íþróttum yfir veturinn. Ef aðstæður valda því að ekki er mögulegt að kenna sundið í þessu formi skulu nemendur fá samtals 20 kennslustundir í það minnsta í sundi og skal þá nýta þær stundir sem eftir standa til annarrar íþróttakennslu.
Það er ekki nóg að boðið sé upp á íþróttatíma heldur skiptir einnig máli hversu virk þátttaka barnsins er í tímum. Hlakkar það til íþróttatíma eða reynir það að koma sér undan þátttöku í þeim? Ef þannig háttar til er mikilvægt að komast að því hvað veldur og leita úrlausna.
Skólaíþróttir eru ekki eini vettvangurinn fyrir hreyfingu í skólanum. Vel búin, aðlaðandi og örugg skólalóð ýtir undir hreyfingu barnanna í frímínútum og eins er mögulegt að flétta hreyfingu inn í aðrar kennslustundir.
Ekki má gleyma mikilvægi reglulegra, heilsusamlegra máltíða til að barnið hafi þá orku sem þarf til að hreyfa sig. Ef langt er á milli máltíða lækkar blóðsykurinn, barnið finnur fyrir orkuleysi og þreytu og er þannig ólíklegra til að taka þátt í fjörugum leikjum.
Gígja Gunnarsdóttir
verkefnisstjóri hreyfingar
www.lydheilsustod.is