Börn og reiðhjól

Forsíða » Fræðsla » Börn og unglingar » Börn og reiðhjól

Mikilvægt er að kaupa rétta stærð af hjóli, þau mega ekki vera of stór. Fyrir yngstu börnin er gott að miða við að barn nái með báðum fótum samtímis niður á jörð. Fylgjast þarf með að börnin kunni umferðarreglurnar og geti farið eftir þeim. Almenna reglan ætti að vera sú að börn undir 12 ára aldri hjóli aðeins á gangstéttum, göngu- og hjólreiðastígum. Fyrr hafa þau ekki þann þroska og reynslu sem þarf til að hjóla samhliða bifreiðum.

Fyrsta tvíhjólið

Hafa það eins einfalt og mögulegt er, án aukahluta eins og gíra eða annars sem dregur athygli barnsins frá því að hjóla.
Best er að hafa fótbremsu.
Ekki er mælt með hjálpardekkjum.

Hvaða sérstöðu hafa börn þegar hjólreiðar eru annars vegar?

Börn hafa ekki náð fullkomnu valdi á grófhreyfingum og samhæfingu vantar í hreyfingar. Enn fremur er jafnvægisskyn þeirra ekki fullþroskað og hliðarsýn takmörkuð. Reynsla þeirra af umferð er lítil og þau geta ekki skynjað hraða og fjarlægð ökutækja sem nálgast auk þess sem þau eiga erfitt með að átta sig á því úr hvaða átt hljóð kemur. Yfirsýn þeirra er takmörkuð sökum smæðar sem þýðir að þau sjá ekki yfir bíla. Síðast en ekki síst eru börn til alls líkleg og eiga það til að taka ákvarðanir í skyndi án þess að hugsa um afleiðingarnar.

Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum
Vertu því alveg viss um að barnið hafi fullt jafnvægi og geti bremsað af öryggi áður en það fer eitt af stað.
Kennum börnum að taka hjálminn af sér þegar þau hætta að hjóla og fara að leika sér.
Barn lærir mest með því að hjóla með fullorðnum, sem eru fyrirmyndir þeirra. Muna að allir eiga að nota hjálm.


Leiðbeiningar við val á hjálmi

Hjálmar fást í mismunandi stærðum og gerðum, við val á slíkum ber að hafa eftirfarandi í huga:

  • Hjálmurinn skal vera CE merktur, þar á einnig framleiðsludagur að sjást. Líftími hjálma er um 5 ár, vegna tæringar í plasti eru eldri hjálmar ekki taldir eins öruggir.
  • Mælið ummál á höfði barnsins. Í hjálminum eru merkingar sem sýna lágmarks og hámarks ummál höfuðsins, veljið hjálm sem passar.
  • Oftast nær fylgja svampar hjálmunum. Því er gott að fá hjálm sem er við efri mörkin og nota svamp til að hjálmurinn sitji þétt við höfuðið.
  • Límmiðar eða tússlitir geta skemmt eiginleika hjálmsins.
  • Hjálmurinn er ekki leikfang. Barnið á að taka hann af sér þegar það er ekki á reiðhjóli, línuskautum eða hlaupahjóli. Hann gæti skaðað barnið ef það fer að leika sér í leiktækjum þar sem hann getur krækst í.
  • Verði hjálmurinn fyrir höggi. Þá hefur hann lokið hlutverki sínu og það ætti að henda honum.hjálmar.jpg
  • Hjálminn þarf að stilla reglulega, þar sem barnið er að vaxa.
  • Ef hlífa þarf höfði við kulda er best að hafa þunna lambhúshettu, buff eða eyrnahlífar sem eru sérstaklega hannaðar fyrir hjálma.
  • Mikilvægt er að fá góðar leiðbeiningar í upphafi um hvernig á að stilla hjálminn þannig að hann sitji rétt á höfðinu.Hjálmurinn á að sitja beint ofan á höfði, ekki of aftarlega eða of framarlega. Lesið leiðbeiningarnar vel sem fylgja hjálminum.
    Hjálmurinn á að verja enni, hnakka, gagnauga og koll. Eyrað á að vera í miðju V-forminu sem böndin mynda.
    Einn eða tveir fingur eiga að komast á milli höfuðbandsins og hökunnar.
    Algengt er að hjálmur sé of lítill, of stór, of laus eða of aftarlega á höfðinu. Hann veitir þá falskt öryggi.
    Hjálmurinn kemur ekki í veg fyrir slys en hann ver okkur fyrir alvarlegum meiðslum. Hjálmurinn getur skilið á milli lífs og dauða

 

 

Unnið úr bæklingi frá Umferðarstofu