Iljarfellsbólga
(Plantar fasciitis)
Orsakir
Plantar fascian er breið sin í ilinni sem nær frá hælbeini og fram í tær og er hlutverk hennar að styðja við iljarbogann. Þræðir úr hásin og plantar fasciu tengjast saman á hælbeini og geta einkenni í annari sininni orsakað einkenni í hinni.
Iljarfellsbólga er bólga í plantar fasciunni sem kemur vegna ofálags. Þar sem plantar fascian er í raun framlenging af hásininni þá eru oft sömu álagsþættir sem valda bólgu í þessum sinum.
Einkenni
Verkir við hlaup og hopp og þegar þrýst er á plantar fasciu festuna undir hælbeininu.Yfirleitt er bólgan alveg við hælbeinið að innanverðu og getur verkur leitt fram ilina. Þetta er mjög algeng ástæða hælverks og verkja í il hjá hlaupurum. Verkurinn eykst við átök og er líka oft til staðar á morgnana þegar fyrstu skref dagsins eru tekin.
Bráðameðferð
Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum – RICE meðferðin.
Skoðun
Við væg einkenni á byrjunarstigi, sem koma smámsaman og ekki versna skyndilega, er ekki nauðsynlegt að leita læknis. Í tilfellum þar sem einstaklingurinn finnur smell eða skyndilegan sársauka í plantar fasciunni skal leita strax til læknis til að útiloka slit í sininni (í hluta hennar) eða beinbrot.
Í öllum tilfellum, þar sem ekki er jafn framgangur í endurhæfingunni, ætti viðkomandi að fara í ómskoðun. Í ómskoðun er hægt að meta hversu alvarleg og hvers eðlis meiðslin eru: bólga í sininni (tendinitis), örvefsmyndun í sininni (tendinosis), kölkun í sininni, bólga í sinaslíðrinu sem umlykur hásinina (peritendinitis), slímsekkjarbólga (bursitis), sem og rifur og slit að hluta til í sininni.
Meðferð
Ef viðkomandi leitar sér fljótt hjálpar hjá sjúkraþjálfara getur hann náð sér á nokkrum vikum. Hafi verkurinn hefur verið til staðar í marga mánuði og ef ómskoðun leiðir í ljós þykknun og breytingar í sininni, getur endurhæfingin tekið nokkra mánuði. Þar sem plantar fascian er framlenging af hásininni, þá er endurhæfingin á margan hátt svipuð og við hásinabólgu.
Þegar verkir og bólga eru horfin þarf að teygja plantar fasciuna með því að toga tær í átt að sköflungi. Ef um stífa liði í fæti eða ökkla er að ræða þarf að liðlosa þá.
Mikilvægt er að skóbúnaður sé í lagi (t.d. góðir hlaupaskór með dempun í hæl og stöðugum hælkappa). Gott er að nota skó með upphækkun í hæl til að minnka álagið á sinina(innlegg eða gelpúði). Kæla skal sinina í hvert skipti sem að hún verður aum í endurhæfingarferlinu. Ef framfarir eru mjög hægar, ber að íhuga notkun bólgueyðandi lyfja eða sprauta bólgueyðandi sterum í kringun þykknunina á sininni.
Þegar sjúkraþjálfun og lyfjameðferð er fullreynd án árangurs, má beita skurðaðgerð.
Í 95 % tilfella lagast plantar fascitiis með minnkuðu álagi, sjúkraþjálfun og innleggjum ef um ranga stöðu í ökkla er að ræða.
Forvörn
Nýlegar rannsóknir gefa einnig til kynna að stíf hásin geti aukið álagið á plantar fasciuna og því er mikilvægt að teygja hana vel.
Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.