Beinhimnubólga

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Leggir » Beinhimnubólga (medial tibial stress syndrome)

Orsakir

Vöðvunum í fótleggnum er skipt í þrjú hólf sem er haldið saman af sterkum vöðvahimnum (fascium). Vöðvahólfin þrjú liggja að framanverðu, utanverðu og að aftanverðu. Fasciurnar sem umlykja vöðvahólfið að aftanverðu festast innanvert á sköflunginn, á meðan fasciurnar af framanverðu vöðvahólfi festast utanvert á sköflunginn.(mynd)

Við síendurtekið, mikið eða rangt álag, getur myndast bólga í vöðvafestingum á sköflungnum. Algengast er að bólgan myndist á neðanverðum og innanverðum sköflungnum þar sem vöðvarnir  m.soleus og m.tibialis posterior festast og kallast það beinhimnubólga.
Engin ein ástæða er fyrir því að einstaklingur fái þessi einkenni og það geta allir sem stunda líkamsrækt af einhverju tagi fengið þau. Þær orsakir sem helst er hægt að nefna eru hlaup á hörðu undirlagi, röng staða á ökklum, hnjám eða mjöðmum og lélegur skóbúnaður.
Þegar maður finnur fyrir verk á þessu svæði er nauðsynlegt að leita til læknis eða sjúkraþjálfara til að útiloka aðrar orsakir verkjarins sem geta verið álagsbrot eða ?compartment syndrome?. Stundum þarf að senda viðkomandi í myndrannsókn til frekari greiningar.

Einkenni

Algengast er að viðkomandi finni fyrir verk á innanverðum og neðanverðum sköflungnum. Fyrst í stað ber yfirleitt aðeins á óþægindum við hlaup og í byrjun æfingar, sem lagast svo þegar hann hitnar. Þegar vandamálið hefur verið viðvarandi lengi hverfur verkurinn ekki og er jafnvel til staðar við göngu. Stundum getur langvarandi beinhimnubólga orsakað álagsbrot á sköflungi.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum – RICE meðferðin.

Skoðun

Þegar einstaklingur er með verki og þeir lagast ekki þrátt fyrir minnkað æfingaálag, er nauðsynlegt að leita sér aðstoðar hjá sjúkraþjálfara eða lækni. Mikilvægt er að fá rétta greiningu á meiðslunum og útiloka að um sé að ræða þreytubrot í sköflungnum. Í sumum tilfellum er nauðsynlegt að senda viðkomandi í myndrannsókn til frekari greiningar.

Meðferð

Flestir ná sér með sjúkraþjálfun og inntöku bólgueyðandi lyfja. Fyrsta meðferð við beinhimnubólgu er ávallt kæling, gott er að nudda ísmola upp og niður eftir auma svæðinu en gætið þess að kæla ekki of lengi svo ekki myndist kalsár. Mikilvægt er að draga úr álagi, styrkja fætur og teygja stutta vöðva. Þegar verkir og bólga eru horfin er mikilvægt að auka álag jafnt og þétt, og alls ekki fara of geyst af stað. Ef grunur um ranga stöðu ökkla er að ræða þarf að fara í göngugreiningu og laga hana með innleggjum. Plattfótur er algeng orsök beinhimnubólgu. Oft hjálpar að hlaupa með hitahlíf á leggjum eða í uppháum hlýjum sokkum, margir klippa neðan af ullarsokkum og nota ullarsokkana sem legghlífar.

Forvörn

Mikilvægt er að vera ávallt í góðum skóm og endurnýja þá eftir þörfum. Það er misjafnt hversu marga kílómetra er ráðlagt að hlaupa á mismunandi skótegundum. Reynið að hlaupa á mismunandi undirlagi, oft er t.d.hægt að nota grasræmuna meðfram malbikuðum göngustígum. Gætið þess að verða ekki kalt á æfingum því kuldi getur orsakað beinhimnubólgu. Ef einkenni gera vart við sig er gott að draga strax úr álagi og leita til sjúkraþjálfara eða læknis.

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.