Piriformis syndrome

Orsakir

Peruvöðvinn (M.Piriformis) er lítill vöðvi sem á upptök á spjaldbeininu og fer í gegnum settaugargatið (sciatic notch) og festist á stóru lærhnútu (trochanter major) á lærleggnum. Vöðvinn gegnir því hlutverki að aðstoða við að snúa lærleggnum út á við. Þar sem vöðvinn fer í gegnum settaugargatið fer einnig stærsta og lengsta taug líkamans, settaugin (sciatica nerv). Í 10% tilfella liggur settaugin í gegnum peruvöðvann.

Þegar of mikið álag er á peruvöðvanum, verður hann spenntur og aumur. Í sumum tilfellum verður vöðvinn svo spenntur og stífur að settaugin klemmist.
Önnur orsök fyrir Piriformis syndrome getur verið ef peruvöðvinn tognar. Annað hvort skyndilega eða vegna mikils álags sem stundum getur tengst krónískri styttingu í peruvöðvanum.

Einkenni

Þegar vöðvinn er spenntur og stífur og taugin klemmist: Verkur djúpt í rasskinninni sem getur leitt niður aftanvert læri og jafnvel niður í kálfa. Stundum fylgir þessu einnig dofi.
Tognun á peruvöðva: Verkur djúpt í rasskinninni sem ágerist í sitjandi stöðu, við að ganga upp tröppur eða við hnébeygjur.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum  (RICE meðferðin).  Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt frá byrjun, þá minnkar bæði blæðingin og bólgan, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær fyrr bata.

Skoðun

Skoðun fer fram hjá lækni eða sjúkraþjálfara. Þrýst er á vöðvann eða hreyfingar (teygjur) framkvæmdar til að athuga hvort hægt sé að framkalla verkinn.
Vöðvinn er yfirleitt ekki myndaður.

Meðferð og endurhæging

Meðferðin byggist upp á teygjum á útsnúningsvöðvum mjaðma og styrktaræfingum fyrir vöðva í kringum mjaðmir, rass og læri. Mjúkvefjameðferð, nudd og triggerpunkta meðferð á peruvöðvann.
Sjálfsnudd: Liggja/sitja á bolta, t.d. tennisbolta og láta boltann nudda auma svæðið. Eða leggjast á frauðrúllu og rúlla yfir svæðið sem er aumt.
Sjúkraþjálfarar nota rafmagnsmeðferð og mjúkpartameðferð sem geta hjálpað til við að minnka einkennin. Oft er mælt með göngugreiningu fyrir þá sem fá piriformis syndrome, þar sem að ójafnvægi í líkamanum getur verið einn af þáttunum sem valda álagsmeiðslum.
Ef verkurinn er slæmur er hægt að taka verkja- eða bólgueyðandi töflur. Ef ekkert af ofantöldu hjálpar er stundum sprautað í vöðvann. Í örfáum tilfellum þegar um taugaklemmu er að ræða þarf að grípa til aðgerðar.

Hér er video með þremur góðum teygjum við piriformis syndrome:
http://www.youtube.com/watch?v=ip0xXylORVM

Hér er video með tveimur góðum styrktaræfingum fyrir peruvöðvann:
http://www.youtube.com/watch?v=Yx1yOuPjVis

Mismunagreining

Ef engin meðferð skilar árangri þá þarf að athuga aftur hvort greining sé rétt. T.d. geta svipuð einkenni og í piriformis syndrome komið fram þegar um eftirfarandi er að ræða:
– Brjósklos í lendarhrygg
– Slímsekkjarbólga við setbeinið eða stóru lærhnútu
– Rifa í aftanlærisvöðvafestu við setbeinið
– Rifa í yfirborðs eða djúpu mjaðmarbeygjuvöðvunum
– Slitgigt í mjöðm
– Mjaðmarliðsbólga

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.