Upphandleggsbrot við olnboga

Orsakir

Algeng orsök upphandleggsbrots er fall á útréttann handlegg. Algengustu brotin eru brot á upphandleggshálsinum eða brot á miðjum upphandleggsbolnum. Hjá börnum er algengasta brotið rétt ofan við olnboga (fractura supracondylaris humeri). Í einstaka tilfellum getur brotið valdið klemmu á æðum og taugum sem liggja á svæðinu.

Einkenni

Skyndilegur verkur í olboganum eftir óhapp. Aumt svæðið í kringum olnboga við þreifingu. Stundum getur verið bólga á svæðinu, sérstaklega í týpu 2 og 3.
Olnboginn getur verið afmyndaður í týpu 2 og 3. Verkur versnar við að reyna að hreyfa handlegg. Athuga taugaeinkenni eða einkenni frá æðakerfi, dofi, kitl, köld eða föl húð. Í týpu 1 getur verið óljóst hvort um brot sé að ræða út af lítilli bólgu og vægum verk því þarf að fara varlega þegar um börn er að ræða.

Hægt er að skilgreina upphandleggsbrot við olnboga á eftirfarandi hátt:

Týpa 1 – Brot í skorðum – bein liggja saman og engin afmyndun

Týpa 2 – Brot lítillega úr skorðum – beinbrotin lítillega hliðruð og smávægileg afmyndun

Týpa 3 – Brot úr skorðum – Beinbrot algjörlega hliðruð og mikil afmyndun

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum – RICE meðferðin. Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt frá byrjun, þá minnkar bæði blæðingin og bólgan, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær fyrr bata.

Skoðun

Ef skyndilegir, miklir verkir í handleggnum koma fram eftir fall á handlegginn auk hreyfiskerðingar, skal ávallt leita læknisaðstoðar. Hætta er á skaða á æðum og taugum á svæðinu.
Brot af þessu tagi er hægt að greina á röntgenmynd.

Meðferð og endurhæfing

Meðferðin fer eftir gerð brotsins:

Týpa 1: Hlífa handleggnum í fatla í 4-6 vikur

Týpa 2: Getur þurft meðhöndlun til að aðstoða við að rétta stöðuna á beinunum áður en handleggurinn er settur í fatla og honum hlíft í 4-6 vikur

Týpa 3: Aðgerð til að rétta beinin af og pinna eða víra til að halda þeim í stöðu. Fyrir aðgerðina þarf að hlífa handleggnum með fatla.

Þegar búið er að fjarlægja umbúðir eða fatla og verkurinn hefur minnkað getur þjálfun á borð við hjól eða hlaup hafist á nýju auk sérstakrar þjálfunar undir handleiðslu sjúkraþjálfara. Styrktar- og liðkandi æfingar fyrir handleggsvöðva og olnbogalið. Mikilvægt er að ná fullri hreyfigetu og um leið ná upp styrk í vöðvum. Börn geta oft snúið aftur í íþróttir innan við 2-3 mánuðum frá broti.

Hafa ber í huga...

Hreyfiskerðing – margir sjúklingar ná ekki rétt alveg úr olnboganum

Skaði getur orðið á æðakerfi – Nálægt staðnum þar sem brotið verður liggur slagæð (a.brachialis) sem getur orðið fyrir skaða. Einkenni eins og kuldi, þvöl húð, föl húð á framhandleggnum eða höndinni eða stór marblettur í kringum olnbogann getur gefið til kynna að skaði sé á æðakerfinu.

Taugaskaði – Nálægt brotsvæðinu liggur einnig taug (N.medianus) sem getur orðið fyrir skaða. Einkenni eins og dofi, kitl eða minnkun á styrk í olnboga, framhandlegg eða hönd.

Brot grær saman í rangri stöðu – beinbrotin tvö gróa ekki í réttri línu

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.